EFNISYFIRLIT

Bretarnir koma

Í hers höndum

Útvarp í stríði

Bandarískt setulið

Ástandið

Stríðslok

Heimildir

Forsíða


HjálpÚtsendingar Breta


Úr þættinum Stríðið á öldum ljósvakans II eftir Ásgeir Eggertsson

 

Í útvarpsþættinum um útsendingar Þjóðverja á Íslensku heyrðum við ýmislegt um það hvers vegna Þjóðverjar töldu ástæðu til þess að senda út efni á íslensku á árum síðari heimstyrjaldarinnar. Nú kynnumst við þeim þætti í sögu útvarpsins þegar sent var út efni á íslensku frá Bretlandi. Bretar hófu útsendingar á Íslensku um hálfu ári á undan Þjóðverjum eða í lok árs 1940. Lítið kemur fram í skjölum sem sýnir fram á hvers vegna Bretar útvörpuðu á íslensku til Íslands, en það má telja líklegt að þeir hafi með þessum hætti viljað treysta tengslin við þjóðina í landinu sem þeir höfðu hernumið.

Það voru tvær stofnanir í Bretlandi sem höfðu yfirumsjón með útsendingunum á íslensku til Íslands. Fyrst ber að nefna breska upplýsingamálaráðuneytið. Ráðuneytið og BBC settu á stofn nefnd til þess að samræma pólitískan áróður, einkum vegna þess að svo margar útlagastjórnir höfðu aðsetur í London og ekki máttu þær verða tvísaga í fréttum og boðskap sínum. Einnig stjórnaði áróðursmálaráðuneytið því hvaða áherslur ætti að leggja í dagskránni til hinna ýmsu landa. Sama efni var til dæmis ekki útvarpað til Frakklands og Noregs. Hin stofnunin var útvarpsstöðin BBC. Hún starfaði undir eftirliti upplýsingamálaráðuneytisins en yfirmenn BBC höfðu samt ákveðnar hugmyndir um það hvernig ætti að standa að dagskrárgerðinni. Novell Newsome, yfirmaður evrópudeildar BBC, hafði fastmótaðar skoðanir á því að styrjöldin væri frelsisstríð og taldi sig einnig vita hvernig heimurinn myndi líta út að stríðinu loknu. Newsome reyndi að móta dagskrá BBC samkvæmt þessu.

Hjá útvarspstöðinni BBC var málum þannig háttað árið 1940, að stofnuð hafði verið norræn deild, sem sá um útsendingar til Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands. Árið 1940 var ákveðið að bæta útsendingum á íslensku við þessa deild og skyldu íslensku þættirnir fá 15 mínútur til umráða einu sinni í viku. Fyrst um sinn sáu breskir dagskrárgerðarmenn um þessa þætti, fengu íslenska og íslenskumælandi pistlahöfunda til að semja efni fyrir þættina.

Við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar höfðu Bretar ekki eins mikla reynslu af útsendingu á erlendum tungumálum og Þjóðverjar. Þjóðverjar hófu útvarp á erlendum tungumálum snemma á fjórða áratugnum, en fyrsta útsending Breta á erlendu tungumáli fór fram árið 1938. Sagnfræðingurinn Asa Briggs hefur ritað sögu BBC og kannað sérstaklega málefni stofnunarinnar í síðari heimstyrjöldinni. Hann segir um fyrstu útsendingar BBC á erlendum tungumálum:

BBC hóf útsendingar sínar á erlendum tungumálum árið 1938. Meginástæðan var máttur áróðursútsendinga Þjóðverja og Ítala sem sendu út til ýmissa landa í Breska heimsveldinu. Ítalskur og þýskur áróður var öflugur í Mið-Austurlöndum, því var fyrsta erlenda tungumálið sem BBC sendi út á arabíska. Hagsmunir Breta voru talsverðir í þessum heimshluta. Næst sendi BBC út á spænsku og portúgölsku til Suður-Ameríku og árið 1939 var útsendingum á þýsku bætt við.

Útsendingar hinna ýmsu þjóða sem fóru fram á stuttbylgju til heimsbyggðarinnar voru oftast gerðar í nafni þeirrar þjóðar sem stóð fyrir þeim. Þannig mátti oft á tíðum líta á það sem fram kom í útvarpinu sem opinberan boðskap. Það var því ekki að sökum að spyrja þegar heimsstyrjöldin síðari braust út. Hinar stríðandi þjóðir notuðu allar þær leiðir sem færar voru til þess að koma baráttumálum sínum á framfæri. Asa Briggs var spurður um það hvort fullyrða mætti að á öldum ljósvakans hefði verið háð stríð.

Já, ég tel að það sé rétt að lýsa síðari heimstyrjöldinni sem stríðinu á öldum ljósvakans. Mikilvægast er að hafa í huga að á þessum tíma var sjónvarpið ekki komið til sögunnar. Þess vegna var seinni heimsstyrjöldin stríð sem var háð með orðum. Því hafði jafnvel verið lýst sem slíku áður en það hófst. Margar bækur voru skrifaðar um stríðið á öldum ljósvakans árið 1940 og 1941. Í þeim var áróðursmaskína Þjóðverja borin saman við þær frumstæðu vinnuaðferðir sem Bretar notuðu. Í lok stríðsins hafði staða mála hins vegar gjörbreyst. Ég tel að á meðan á stríðinu stóð hafi BBC fengið það orð á sig að vera hin ráðandi rödd í þessu útvarpsstríði sem var háð í Evrópu og víða annars staðar.

Á stríðsárunum fjölgaði erlendu ritstjórnunum hjá BBC mjög ört. Sífellt fleiri útlagastjórnir settust að í London og þær gerðu kröfu til þess að breska útvarpið sendi út dagskrá til heimalanda sinna. Útlagarnir voru oft fengnir til þess að sjá um dagskrána. Klassíska dæmið er af frönsku ritstjórninni hjá BBC, sem Frakkar stjórnuðu algerlega. Erlendu ritstjórnirnar urðu að lúta valdi yfirmanns evrópudeildar BBC og starfsmennirnir gátu ekki vikið sér undan fránum augum ritskoðara upplýsingamálaráðuneytisins. Á árinu 1940 virðist hafa verið lögð aukin áhersla á útsendingar á erlendum tungumálum hjá BBC og það var einmitt það ár sem íslenskan bættist í röð þeirra tungumála sem útvarpað var á. En hvað telur Asa Briggs að hafi verið sameiginlegt með erlendu ritstjórnunum hjá BBC:

Ég tel að þær hafi allar þurft að virða þrjár reglur. Í fyrsta lagi urðu erlendu ritstjórnirnar að segja áreiðanlegar fréttir. Að mínu viti leysti BBC þetta verkefni vel af hendi. Í öðru lagi var það verkefni útvarpsins að auka viljastyrk þeirra þjóða sem voru hernumdar en það var þó ekki markmiðið að hvetja þær til andspyrnu. Og í þriðja lagi átti útvarpið að segja frá gengi Breta í stríðinu

Víkjum þá að stríðinu sem háð var á öldum ljósvakans. Einn af skæðustu óvinum Breta á þessum vettvangi var breski útvarpsmaðurinn Lord Haw Haw. Þetta var þó ekki hið eiginlega nafn hans, því það var flestum hulið þar til stríðinu lauk. Lord Haw Haw hlaut þetta viðurnefni vegna þess hve áróður hans var beinskeyttur og kaldhæðinn, en ekki vegna þess hversu mikla kátínu hann vakti. Bretum var meinilla við Lord Haw Haw og réðu góða penna og mælska menn til þess að svara honum. Að stríðinu loknu kom í ljós að Lord Haw Haw hét réttu nafni William Joyce og var frá Írlandi. Ungur að árum hafði hann gengið til liðs við öfgafulla breska þjóðernissinna og þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi hreifst hann mjög af hugmyndum hans. Joyce var einn af mörgum útlendingum sem störfuðu í Þýskalandi á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar og höfðu lifibrauð sitt af því að tala í þýska útvarpið.Örlög Lord Haw Haw voru þau að hernámslið Breta handtók William Joyce og eftir stutt réttarhöld, þar sem hann var ákærður fyrir landráð, var hann tekinn af lífi.

Víkjum þá aftur að útsendingum BBC á erlendum tungumálum. Hugtökin áróður og upplýsingar og tengslin þar á milli komu upp í hugann þegar Asa Briggs sagði hér á undan að BBC hefði átt að útvarpa áreiðanlegum fréttum. Á stríðstímum er ekki auðvelt að segja hvað áreiðanlegar fréttir eru, þar sem ýmsu var skotið undan sem ekki mátti segja frá. Hvað segir Asa Briggs um þetta?

Þetta er mjög áhugaverð spurning um sambandið á milli áróðurs og upplýsinga. Fyrir stríðið fyrirlitu Bretar hugtakið áróður. Þeir tengdu það við Göbbels og Þjóðverja. Ef Bretar hefðu vogað sér að tala um áróður fyrir stríðið hefðu þeir lent í töluverðum vandræðum. Á meðan á stríðinu stóð voru fluttir pistlar og ræður í útvarpið þar sem skoðanir höfundarins komu berlega í ljós. Það var hins vegar ekki litið á slíkt sem áróður heldur var talið að nauðsynlegt væri að gefa fólki upplýsingar. Eins og áður kom fram var það hlutverk útvarpsins að auka viljastyrk fólks, en það er augljóst að erfitt er að draga skýra línu á milli upplýsinga sem felast í fréttum og upplýsinga sem styrkja vilja fólks. Þegar horft er á þessi mál úr 50 ára fjarlægð er hægt að fullyrða að áróðri hafi verið útvarpað í Bretlandi. Það var þó ekki áróður sem var úthugsaður og ætlaður til þess að hafa áhrif á skoðanir og hegðun fólks.

Við skulum þá víkja að upphafi útsendinga BBC á íslensku. Hjá breska áróðursmálaráðuneytinu hafði Grace Thornton umsjón með útsendingunum á íslensku og hún var jafnframt yfirmaður Íslendinganna sem störfuðu við þessa þætti. Grace Thornton hafði lagt stund á norræn fræði og var því að nokkru leyti kunnug málefnum landsins. Grace Thornton hafði mikil samskipti við James Tudor Jones sem starfaði hjá BBC. Þau sáu um að samræma ýmislegt á milli þessara tveggja stofnana. Sex dögum áður en íslensku útsendingarnar hefjast skrifar James Tudor Jones starfsmönnum sínum og tilkynnir þeim að þess sé stutt að bíða að íslensku þættirnir hefji göngu sína.

Næsta sunnudag, þann 1. desember klukkan 14:30, hefst reglubundin útsending til Íslands. Um er að ræða 15 mínútna þætti. G.P.P. sendir verður notaður til þessa. Á dagskrá þáttarins næstkomandi sunnudag verður:

Íslenski þjóðsöngurinn
Orðsending frá sendifulltrúa Íslands
Kveðja á ensku frá Harold Nicholson
Ræða á íslensku sem Turville Petre flytur

Má ég biðja þig um að sjá um að hljóðstofa verði tekin frá, að réttar línur og tengingar verði til staðar, sem og upptaka af íslenska þjóðsöngnum. Æfingar hefjast klukkan 12:30 á sunnudaginn.

Blaðamenn á dagblöðum sem komu út hér á landi hlustuðu vel á fréttasendingar erlendra útvarpsstöðva á stuttbylgju. Tilkynningar um íslensku útsendingarnar sem heyra mátti á BBC fóru ekki fram hjá þeim. Sunnudaginn 1. desember árið 1940 segir Morgunblaðið lesendum sínum eftirfarandi tíðindi.

Það var tilkynnt í norska útvarpinu frá London í fyrradag að útvarpað myndi verða á íslensku frá London í dag, á fullveldisdaginn. Vegna slæmra hlustunarskilyrða var ekki hægt að heyra hvort útvarpið hefst klukkan 18:00 eða 18:30.

Hið rétta var að fyrsta útsendingin fór fram þann 1. desember klukkan 17:35 að íslenskum tíma. Dagblöðin Vísir og Tíminn birtu á forsíðu ítarlega frásögn af þessari útsendingu og var vitnað í það sem þar kom fram. Við skulum athuga hvernig Vísir greindi lesendum sínum frá íslenska útvarpinu.

Í fyrradag var tilkynnt í útvarpinu í London að útvarpað yrði á íslensku frá London kl 17:35 á sunnudag og myndi fulltrúi Íslands í London og Harold Nicholson, aðstoðarráðherra tala. Munu menn því hafa búist við að Pétur Benediktsson, fulltrúi íslensku ríkisstjórnarinnar í London flytti ræðu, en svo varð ekki. Nicholson flutti heldur ekki ræðu í þessum íslenska útvarpstíma í gær í London. En flutt var ræða á íslensku og minnst fullveldisins. Var auðheyrt að ræðuna flutti erlendur maður, en hún var flutt á sæmilegu máli og var vinsamleg í Íslands garð. Að lokinni ræðunni var leikinn íslenski þjóðsöngurinn „Ó guð vors lands". Að útvarpinu loknu var tilkynnt að þetta hefði verið fyrsta íslenskt útvarp frá London, og yrði framvegis útvarpað þaðan á íslensku kl 15.35 á hverjum sunnudegi. Ræðumaður fór nokkrum orðum um erfiðleika þá sem við væri að stríða í Bretlandi, vegna styrjaldarinnar og gerði nokkra grein fyrir þeim, en þrátt fyrir þá væri margt sem gæfi góðar vonir. Bretar, sagði hann, hefðu löngum verið taldir nokkuð einrænir og lítið fyrir það gefnir að hafa afskipti af örðum eða kynnast öðrum þjóðum vel, en þetta væri eitt af því sem væri að breytast - og meðal bresku þjóðarinnar væru nú margir bandamenn þeirra, Pólverjar, Tékkar, Norðmenn og fleiri þjóðir og gæfist þar með tækifæri til frekari kynna. Ræðumaður fór nokkrum orðum um hernám Breta á Íslandi og afstöðu þeirra til Íslands og íslenskra málefna, íslensku þjóðarinnar bókmennta hennar og menningar. Ræðumaðurinn sagði að það væri ósk Breta, að Ísland yrði sjálfstætt áfram. Hann kvað Breta hafa verið til neydda að hernema landið vegna þess, að annars hefðu Þjóðverjar orðið fyrri til og hefðu Bretar með þessu viljað hindra að hið sama gerðist hér sem í Danmörku og Noregi. Hann sagði að Bretar vildu ekki hafa neina íhlutun um stjórn landsins. Þegar ófriðurinn er búinn hverfur breska setuliðið á brott frá Íslandi sagði ræðumaður. Hann minntist íslenskra bókmennta mjög lofsamlega. Þær hefðu blómgast á öllum öldum, en engar bókmenntir væru sambærilegar við fornbókmenntir Íslands, nema fornbókmenntir Grikkja. Heimurinn myndi vera fátækari, sagði ræðumaður, ef Ísland glataði sjálfstæði sínu. Í ræðulok sagði hann: Sjálfstæði Íslands lifi, lengi lifi Stóra Bretland.

Dagskrá þessarar fyrstu útsendingar virðist hafa breyst nokkuð frá því sem tilkynnt var starfsmönnum BBC vikunni áður. Tveir ræðumenn gengu úr skaftinu. Vararáðherrann Harold Nicholson kom ekki fram í þættinum og heldur ekki sendifulltrúi Íslands. Það er því aðeins eitt nafn eftir á listanum, nafn Gabriels Thurville-Petre, sem er umræddur Breti sem talaði „sæmilega íslensku" að sögn Vísis. Gabriel Thurville-Petre kom nokkuð við sögu í þessum þáttum og sagði hlustendum gjarnan frá viðfangsefnum sínum, sem voru bókmenntir og menning landsins til forna.

Morgunblaðið sá einnig ástæðu til þess að segja álit sitt á útsendingum BBC á íslensku. Í leiðara þess 3. desember 1940 mátti lesa:

Forráðamenn breska útvarpsins hafa ákveðið að framvegis verði íslenskur útvarpskafli á hverjum sunnudegi í Lundúnaútvarpinu. Þetta íslenska útvarp þaðan byrjaði þann 1. desember, sem kunnugt er. Því miður barst það of fáum til eyrna hjer, á hvaða tíma þessi útsending ætti að fara fram. Svo margir sem annars hefðu viljað og getað heyrt hana, urðu af henni fyrir vikið. Það sem mesta athygli vakti í útsending þessari frá London, voru ummælin sem þar komu fram og samhljóða voru yfirlýsingunni, sem bretar gáfu íslensku ríkisstjórninni 10. maí, um afskiftaleysi Breta af íslandsmálum og brottför þeirra að stríðinu loknu. Ekkert hefir hin breska herstjórn aðhafst hjer eða hið breska setulið síðan 10. maí, sem gæti vakið nokkurn grun um, að Bretum dytti í hug að bregðast loforðum þeim, er þeir gáfu daginn sem landið var hernumið, enda eru slík brigðmælgi óhugsanleg. En samt sem áður verður því ekki neitað, að endurtekning sú eða staðfesting, sem átti sjer stað í breska útvarpinu 1. desember var íslensku þjóðinni kærkomin, ekki síst vegna þess að hún kom fram til hátíðabrigðar, á fullveldisdaginn. Og hún var þar ekki endurtekning ein, heldur rökstudd á þann hátt, að það væri ósigur réttlætisins, ef íslenska þjóðin fengi ekki að varðveita sjálfstæði sitt. Hyrfi hún, og um leið varðveisla hins íslenska menningararfs, yrði heimurinn fátækari eftir en áður.

Bretar biðu spenntir eftir viðtökum Íslendinga við útvarpsþáttum BBC á íslensku. Í breska sendiráðinu í Reykjavík var fylgst með frásögnum fjölmiðla af þessum viðburði. Blaðafulltrúi breska sendiráðsins í Reykjavík samdi eftirfarandi frásögn af því sem hann varð áskynja og sendi yfirboðurum sínum á Bretlandi.

Í fréttum sem birst hafa um hátíðahöldin hafa dagblöðin gefið útsendingunni á íslensku dágott rými. Allur texti hennar var birtur í tveimur dagblöðum. Þessari tilraun hefur verið tekið mjög vel og Íslendingar eru hrifnir af því að ástæða hafi þótt til að útvarpa til þeirra á eigin tungumáli. Útsendingin vakti mun meiri athygli en þáttur sem sendur var út frá Danmörku, þar sem heyra mátti ávarp Staunings. Svo einkennilega vildi til að í dagskránni frá London var að hluta til fjallað um sömu málefni og Ólafur Thors hafði minnst á í ræðu sinni á svölum Alþingishússins stuttu áður.

Úr bréfum sem varðveist hafa má sjá að nokkur umræða hefur farið fram á milli manna í upplýsingamálaráðuneytinu og starfsmanna BBC um íslensku þættina. Fröken Stewart hjá upplýsingamálaráðuneytinu skrifar Tudor Jones hjá BBC tæpri viku eftir að útsendingarnar á íslensku hófust.

Ert þú sömu skoðunar og ég að öll erum við ófær um að dæma um ágæti útsendingarinnar til Íslands, þar sem við skiljum ekki íslensku, það er að segja ef fröken Thornton er undanskilin. Svo virðist sem sérfræðingarnir hjá BBC setji sér hærri markmið hvað gæði þáttanna varðar og viðtökur á Íslandi, en við hjá upplýsingamálaráðuneytinu. Hvað sem þessu líður vona ég að herra Turville Petre megi takast að bæta sig með góðri hjálp og mikilli æfingu. Fröken Thornton segir að íslenskan sé töluð með syngjandi tón, sem karlmönnum takist oft á tíðum ekki að ná fram. Hún telur að það sé ástæða þess að aðalþulurinn í Reykjavík er kona.

Grace Thornton hjá upplýsingamálaráðuneytinu skrifaði Tudor Jones hjá BBC rúmum mánuði eftir að íslensku útsendingarnar hófust.

Kæri Tudor Jones

Bestu þakkir fyrir bréf þitt frá 22. janúar og fylgiskjölin. Ég sendi þér hér með aftur

Handritið frá prófessor Sommerfelt
Bréf og handrit frá frú Benediktsson
Bréf frá Turville-Petre
Bréf frá frú Olafsson

Ég hef haldið eftir handriti ræðunnar frá síðasta sunnudegi. Handritið frá herra Olsen er nú í höndum fröken de Castro. Hún hringdi í ráðuneytið í gær og sótti það. Hún hefur skrifað handrit fyrir næsta sunnudag, ef svo fer að ekkert annað liggur fyrir. Ég las það og lagði til að hún héldi því til frekari nota seinna. Mér fannst ræðan sem prófessor Sommerfelt hélt, vera mjög góð, ég dreg þó í efa hvort nauðsynlegt hafi verið að leggja allar 15 mínúturnar undir hana. Kaflann í henni, þar sem minnst er á að Þjóðverjar geri tilkall til Íslands og þá fráleitu yfirlýsing að Ísland sé germönsk eyja er vel þess virði að nota í öðrum skandinavískum útsendingum. Einnig mætti útvarpa ræðunni í dagskrá BBC hér innanlands. Ég var fyrir vonbrigðum með handritið frá frú Benediktsson. Betra hefði verið að greina nánar frá ýmsu sem hún minntist á þegar hún sagði frá ástandinu í London. Í dag fengum við skeyti frá Íslandi þar sem koma fram tillögur og gagnrýni hvað varðar útsendingar BBC á íslensku. Íslendingar vilja ekki vita sérstaklega um eigin menningu og bókmenntir. Þeir vilja gjarnan hlusta á fréttir af Íslendingum á Bretlandi. Einnig vilja þeir hlusta á ræður um herinn, heimsveldið og álit sérfræðinga á framgangi stríðsins. Mælt er með því að frásögnum af stríðinu svipi til þeirra stríðsfrétta sem birst hafa í dagblöðunum. Einnig er ráðlegt að segja frá sérstökum atburðum og ástandi mála í Skandinavíu þegar flytja á áróður gegn óvininum. Ekki er víst að hægt sé að greina frá einstökum atburðum, en þegar við fáum liðsinni íslensku dagskrárgerðarmannanna, sem verður innan skamms, eiga þessir erfiðleikar að vera úr sögunni.

Dagskráin á íslensku var í fyrstu sett saman af starfsmönnum BBC, sem réðu fyrirlesara í þættina. Grace Thornton minntist á að íslenskir starfsmenn væru væntanlegir og komumst við von bráðar að því hverjir þessir Íslendingar voru. En fregnir af viðtökum íslensku þáttanna hjá BBC héldu áfram að berast til Bretlands. Í september árið 1943 ræddi Grant Purves, sem var starfsmaður BBC, við Mackenzie, blaðafulltrúa breska sendiráðsins á Íslandi, um ýmislegt sem snerti veru Breta á Íslandi. Grant Purves skrifaði um þetta skýrslu og sendi til samstarfsmanna sinna.

Mackenzie telur íslensku þættina vera góða. Hann fær upplýsingar um efni þeirra fyrirfram og getur því kynnt það fyrir íslenskum dagblöðum og útvarpinu. Hann segir að nýi kynnirinn lofi góðu; nauðsynlegt sé að finna þul sem glæði efnið persónulegum blæ. Fréttapistlarnir eru að nokkru leyti endurtekning á þeim fréttum sem dagblöðin og útvarpið hafa flutt landsmönnum. Íslendingar fá mikið af breskum fréttum sem sagðar eru á ýmsum tungumálum. Klukkan sex á hverjum degi endurvarpar Íslenska útvarpið þætti BBC sem sendur er til Afríku og ætlaður er hermönnum. Þar má heyra fréttir og afþreyingarefni sem sumir Íslendingar hlusta á. Íslenska útvarpið flytur einnig þrisvar á dag hlutlausar fréttir frá Bretlandi og Þýskalandi. Blaðamenn og útvarpsmenn hlusta á allt sem þeir geta frá Englandi - breskar fréttir, norskar, danskar, þýskar og svo framvegis. Mackenzie leggur til að bjóða Íslendingum upp á meiri fjölbreytni í þáttunum á íslensku og segir að halda eigi áfram að fá íslendinga sem staddir eru í London að hljóðnemanum. Nefnd sem semja á um fisksölu er væntanleg til London innan skamms og ætti að reyna að draga þá að hljóðnemanum. Mackenzie segir að lítið sé hlustað á íslensku þættina frá Þýskalandi. Blaðamenn hlusta þó á þá og vitna til ýmissa fáránlegra upplýsinga sem þar koma fram.

Fyrsti íslenski starfsmaðurinn sem kom við sögu í þessum útsendingum var Bjarni Guðmundsson. Hann starfaði við þær árin 1941 og 1942, þó ekki samfleytt. Íslendingar sem störfuðu við þessar útsendingar voru í raun starfsmenn upplýsingamálaráðuneytisins, þar sem það var í raun og veru potturinn og pannan í íslensku þáttunum. Þann 4. júní 1942 skrifar J. A. Godfrey hjá BBC um Bjarna.

Ráðuneytið hefur samþykkt að endurráða hr. Guðmundsson, íslenskan blaðamann, sem innan skamms snýr hingað aftur frá Íslandi. Ráðuneytið greiðir honum mánaðarlega og er eitt af skilyrðunum sem honum er sett að hann skrifi endurgjaldslaust talsvert af greinum, vinni við þýðingar og fáist við ýmis verkefni sem blaðamaður. Þar að auki taki hann að sér útvarpsstörf eins og þurfa þyki. Þetta er nokkuð óljós lýsing, en fylgjast þarf með því að hann fái ekki greitt frá BBC fyrir þá vinnu sem hann innir þar af hendi.

Samkvæmt þeim skjölum sem voru aðgengileg hjá BBC virðist Bjarni Guðmundsson hafa gert meiri kröfur til íslensku þáttanna en starfsmenn BBC og upplýsingaráðuneytisins. Um þetta skrifar Lassen, deildarstjóri skandinavísku deildarinnar hjá BBC þann 23. júní árið 1942.

Mér skilst að hr. Guðmundsson, sem er lánaður til okkar frá upplýsingamálaráðuneytinu, til þess að sjá um 30 mínútna útvarpsþátt á íslensku einu sinni í viku, á mánudögum hafi skrifað hr. Purvis og tjáð honum að hann telji íslensku þættina með öllu gagnslausa. Ef ekki tekst að lengja útsendingartímann leggur hann til að þættirnir verði teknir af dagskrá. Hr. Guðmundsson hefur sagt stöðu sinni hjá upplýsingamálaráðuneytinu lausri og greint hr. Purvis frá því. Hann bendir á að fröken Thornton, úr ráðuneytinu, sem er nú stödd á Íslandi, geti veitt okkur nánari upplýsingar þegar hún kemur til baka. ... Ef ekki tekst að ráða mann í stað hr. Guðmundssonar gæti farið svo að leggja verði íslensku þættina niður

Ekki fór svo að íslensku þættirnir yrðu lagðir niður. Í stað Bjarna Guðmundssonar var Agnar Þórðarsson, ráðinn, en hann varð síðar þekktur sem rithöfundur.

Þó svo að stríðinu væri ekki lokið ræddu menn um að slíta útsendingunum til Íslands. Ástæðurnar munu fyrst og fremst hafa verið þær að nú höfðu vesturveldin náð yfirhöndinni í síðari heimstyrjöldinni og þótti sýnt hvert stefndi. Aðeins ein upptaka hefur varðveist af útsendingu breska útvarpsins á íslensku, en hún er af síðasta þættinum sem var á dagskrá þann 25. júní árið 1944.
Ritskoðun í Ríkisútvarpinu
Axel Thorsteinsson fréttamaður segir frá

Tveir Kósakar"
Björn Sv. Björnsson talar frá austur-
vígstöðvunum. Útvarpað af þýska útvarpinu í september 1942. © DRA

Góðir Íslendingar"
Ávarp Gabriels Turville-Petre. Útvarpað af BBC 18. júní 1944

Vakna þú íslenzka þjóð"
Ávarp ónafngreinds Íslendings. Útvarpað í þýska útvarpinu 10. desember 1944. © DRA

Hervörður í útvarpinu
Úr ritinu Útvarp Reykjavík eftir Gunnar Stefánsson

Útsendingar Þjóðverja
Úr handriti Ásgeirs Eggertssonar að þáttunum Stríðið á öldum ljósvakans

©Ríkisútvarpið-menningardeild / Ljósmyndasafn Reykjavíkur 1998