EFNISYFIRLIT

Bretarnir koma

Í hers höndum

Útvarp í stríði

Bandarískt setulið

Ástandið

Stríðslok

Heimildir

Forsíða


Hjálp


Útsendingar Þjóðverja


Úr Stríðið á öldum ljósvakans I eftir Ásgeir Eggertsson

 

Á árum síðari heimsstyrjaldar notuðu allar styrjaldarþjóðir, sem tök höfðu á, útvarpið til þess að koma upplýsingum og áróðri á framfæri við hlustendur víðs vegar í heiminum. Í þessum efnum kom Ísland nokkuð við sögu, þar sem útsendingar á íslensku fóru fram á stuttbylgju frá Berlín á vegum þýska útvarpsins. Frá London útvarpaði BBC einnig útvarpsþáttum á íslensku. Við kynnumst því hér á eftir hvers vegna Þjóðverjar töldu nauðsynlegt að útvarpa fréttum, fyrirlestrum og ýmsu áróðursefni á íslensku til Íslands. Í næsta þætti komumst við að því hvernig BBC skipulagði útsendingar sínar á íslensku og hvernig þær fóru fram.

Á stríðsárunum var opinbert hlutverk útvarpsins í Þýskalandi að efla kjark og vilja þjóðarinnar. Útvarpið vann líka að því að treysta sambandið á milli þýsku þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar og hvetja fólk til þess að vinna á fórnfúsan hátt í þágu lands og þjóðar. Málstaður Þýskalands var því lofaður í hvívetna, en andstæðingurinn hæddur og lítillækkaður.

Áður en heimsstyrjöldin hófst töldu Þjóðverjar að ekki væri nóg að móta almenningsálitið í Þýskalandi, heldur væri nauðsynlegt að láta aðrar þjóðir verða þess áskynja hvaða stefnu landið hygðist taka. Þess vegna voru settar upp sterkar sendistöðvar, sem gerðu Þjóðverjum kleift að senda út dagskrá á stuttbylgju til nánast allrar heimsbyggðarinnar. Áróðurstól, öflugra en nokkuð sem menn höfðu áður þekkt, var komið fram á sjónarsviðið. Sálfræðilegur þáttur stríðsins hafði verið uppgötvaður og allar leiðir voru reyndar til þess að hafa áhrif á skoðanir almennings með aðstoð fjölmiðla.

Hið sanna og rétta útvarp er áróður eins og hann gerist bestur. Útvarpið er samnefnari orðsins áróður. Ef við greinum nánar innihald þessa orðs er áróður það að breiða út, styrkja, berjast á öllum vígstöðvum andans, yrkja jörðina, fjölga, eyða, ryðja, byggja upp og rífa niður. Í orðinu áróður felst stefna og markmið. Það er hugtak sem beinist að hinu góða, sanna, rétta og réttláta.

Þetta skrifaði dr. Adolf Raskin, útvarpsstjóri Þýska stuttbylgjuútvarpsins. Yfir öllum fjölmiðlum í Þýskalandi drottnaði áróðursmálaráðherrann Josef Göbbels. Hvað var það sem einkenndi áróður hans? Dr. Ansgar Diller er sérfræðingur við Þýska útvarpssafnið í Frankfurt. Hann svarar þessari spurningu.

Það sem einkenndi áróðurinn var sigurvissa Þjóðverja og allir þættir í útvarpinu voru gerðir þessu til staðfestingar. Að stríðinu loknu var hugtakið úthaldsáróður búið til sem þýddi að jafnvel þótt fréttir hefðu borist af ósigri á vígstöðvunum var slíkum tíðindum snúið upp í sigra þýska hersins. Fjölmiðlarnir voru allir undir eftirliti áróðursmálaráðuneytisins. Skipulagi þess var þannig háttað á tímum seinni heimstyrjaldarinnar að Göbbels hélt daglega fundi með deildarstjórum sínum í ráðuneytinu. Á þeim var ákveðið hvað mætti birtast í dagblöðunum daginn eftir og hvaða fréttir mátti segja í útvarpinu. Á þessum fundum voru einnig gefnar fyrirskipanir um það sem ekki mátti greina frá í fjölmiðlum. Starfsmenn á dagblöðum og í útvarpinu höfðu enga möguleika á að óhlýðnast þessum skipunum, þar sem slíkt hefði kostað uppsögn eða fangelsisvist. Almenningur mátti ekki hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Þann 1. september árið 1939 voru sett lög sem nefndust „Sérstök tilskipun um útvarpsmál". Í þeim kom fram að stranglega væri bannað að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar og breiða út þær fréttir, sem þar kæmu fram. Refsingin var fangelsisvist og í einstökum tilvikum var fólk líflátið.

Að seinni heimsstyrjöldinni lokinni gerði breska útvarpið könnun á meðal stríðsfanga um útvarpshlustun þeirra í Þýskalandi. Niðurstöðurnar sýndu að um tvær milljónir Þjóðverja hlustuðu reglulega á útsendingar BBC.

Á fyrstu árum stríðsins voru þúsundir manna dæmdar fyrir að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Til þess að fæla fólk frá þessari refsiverðu iðju voru dómar af þessu tagi af og til birtir í dagblöðum og tímaritum. Dómarnir voru einnig birtir almenningi á veggspjöldum, sem hengd voru upp á götum úti.

Þó svo að útsendingar á erlendum tungumálum væru mjög umfangsmiklar litu frammámenn nasista í Þýskalandi svo á að áróður til eigin þjóðfélagsþegna skipaði veigamikinn sess í ríkisrekstri. Áróðursmálaráðherra nasista, Joseph Göbbels, sagði eitt sinn: „Skoðunum almennings má líkja við sjöunda stórveldið. Þegar aðrir draga saman herlið og setja upp herfylki gerum við skoðanir almennings klárar". Göbbels réði yfir öllum þeim fjölbreyttu áróðurstækjum sem til boða stóðu til þess að hafa áhrif á skoðanir landsmanna sinna. Það má telja það ólíklegt að Adolf Hitler hefði fengið þá ímynd sem raun bar vitni ef hinn hjálplegi og ómissandi þjónn hans, Göbbels, hefði ekki aðstoðað hann við að ná tökum á Þjóðverjum. Heyrum hvað Ansgar Diller, sérfræðingur við Þýska útvarpssafnið í Frankfurt, segir um áróðurstækni Göbbels.

Ég tel að mjög margt í áróðrinum sé hægt að rekja til hugmyndaauðgi Göbbels og starfsmanna hans, sem fengu hugmyndirnar að þeim áróðri sem þjóðinni var síðan færður. Hins vegar er ég ekki þeirrar skoðunar að Göbbels hafi kannað eða rannsakað sérstaklega hvernig væri best að hafa áhrif á almenning. Ég held að þeir sem sögðu fréttirnar hafi ekki gert sér í hugarlund hvernig almenningur myndi bregðast við þeim, heldur einungis birt það sem kom frá yfirboðurum þeirra í Berlín.

Það var þó ýmislegt gert til þess að auka áhrif og mátt útvarpsins. Til dæmis var efnt til samhlustunar í sérstökum hlustunarstofum. Þar kom fólk saman og hlustaði á útvarp þegar mikið var um að vera, en sérstaklega þegar Hitler og Göbbels héldu ræður sínar.

Íslenska var eitt tungumálið sem sent var út á frá þýska útvarpinu. Útsending frétta og ýmissa þátta á íslensku hófst árið 1941, nánar tiltekið þann 17. júní. Undirbúningur fyrir þessar útsendingar hafði staðið í um eitt ár, eða frá miðju ári 1940. Svo virðist sem Dr. Lienhard, yfirmaður þeirrar deildar í utanríkisráðuneytinu sem fór með mál Hollands og Norðurlanda, hafi haft veg og vanda af þessum undirbúningi og kemur fram í ýmsum skjölum að hann hafi haft mikinn áhuga á því að hefja útsendingar til Íslands.

Minnisblað til herra Rühle og dr. Schirmers.
Afrit fá hr. Kiesinger og hr. Mair
Varðar: Upphaf útsendinga frá Þýskalandi til Íslands.
Þar sem Ísland er nú orðið hluti af hinu stækkaða þýska hernaðarsvæði, hef ég aftur máls á tillögu minni frá 30. mars 1940 og legg til að útsendingar frá Þýskalandi verði hafnar til Íslands.

Þetta skrifaði Dr. Lienhard, starfsmaður þýska utanríkisráðuneytisins í deild þeirri sem fór með málefni Hollands og Norðurlanda. Bréfið var ritað í lok mars árið 1941. Dr. Lienhard segist hafa fengið af því fregnir að til standi að breyta stjórnarskrá Íslands og lýsa yfir sjálfstæði landsins

Lagt hefur verið til að Vilhjálmur Stefánsson verði forseti landsins. Stefánsson er einn þeirra 20 þúsund Íslendinga sem búa í Kanada og fyrir mörgum árum lýsti hann yfir því að Ísland og Grænland væru hluti af áhrifasvæði Bandaríkjanna. Áróður Breta beinist að því að gera Ísland hluta af breska heimsveldinu. Í ljósi þeirra möguleika sem opnast þegar Ísland er orðið hluti af herfræðilegu áhrifasvæði Þýskalands, tel ég nauðsynlegt að upplýsa íslensku þjóðina um stefnu Þýskalands. Með tilliti til viðskiptatengsla þýska ríkisins og Skandinavíu er mikilvægt að leggja áherslu á samband Íslands við Skandinavíu og spyrna við því að Íslands falli undir á amerískt áhrifasvæði.

Lienhard víkur einnig að fólksfjöldanum á Íslandi og segir það ekki rétt að miða mikilvægi útsendingarinnar við höfðatölu landsmanna. Hann segir að útvarpið sé mikilvægur fjölmiðill á Íslandi og menningarhlutverk þess sé ótvírætt. Í þeim efnum hafi útvarp mun meira vægi en dagblöðin. Á Íslandi eru 20 þúsund skráð viðtæki og segir Dr. Lienhard að útvarpið nái nánast eyrum allrar þjóðarinnar.

Stefnan í áróðrinum til Íslands verður að bera þess merki að Þýskaland muni, fyrst allra stórvelda, virða þjóðlega sérstöðu Íslands með því að upplýsa landsmenn um gang mála í Mið-Evrópu. Í þáttunum verður að koma fram að Þýskaland virði tilverurétt og sjálfstæði smáþjóða og að Þjóðverjum hafi verið nauðugur sá kostur að hernema smáríki á sama hátt og stríðið hófst gegn vilja Þýskalands.

Lienhard lýkur bréfi sínu á því að leggja til að sent verði út daglega á stutt- eða miðbylgju og nefnir að æskileg lengd útsendinganna sé 15 mínútur. Þremur mánuðum síðar, í júní 1941, skrifar Lienhard annað minnisblað þar sem hann segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að hefja útsendingar á stuttbylgu, 19,74 metrum, frá klukkan 20:45 til klukkan 21:00.

Þar sem erfiðlega gekk að finna starfsfólk hefur undirbúningur íslensku þáttanna dregist á langinn. Nú hefur okkur tekist að fá íslenskan ritara frá Kaupmannahöfn og við vonumst til að geta ráðið fleiri íslenska starfsmenn. Við teljum ráðlegt að hefja útsendingarnar frá Þýskalandi hinn 17. júní í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga. Við leggjum til að hefja þessa þjónustu með þeim Íslendingum sem starfa við Kult R, herra Jónsson og íslensku vélritunarstúlkunni fröken Jónsdóttur. Síðastliðnar vikur hefur herra Jónsson safnað efni. Þessu til viðbótar hefur flugmálaráðuneytið lofað að veita okkur aðgang að þýskum starfsmanni með sérþekkingu á málefnum Íslands. Stefna þáttanna hefur verið ákveðin og rætt við von Grundherr sendiherra að viðstöddum herra Eichberg.

Í þessu bréfi, sem er eitt af fáum skjölum sem varðveist hafa um útsendingarnar, kemur einnig fram að fulltrúi þýska ríkisins í Kaupmannahöfn hafi mikinn áhuga á fyrirhuguðum útsendingum á íslensku og telji að fyrsti dagur útsendingarinnar, 17. júní 1941, sé vel valinn. Þá segir dr. Lienhard að nýjum íslenskum starfsmönnum verði þegar vísað til evrópudeildar útvarpsins, eins og gert hafi verið við finnsku og sænsku starfsmennnina.

Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur hefur rannsakað þátt Íslendinga í Þýskalandi á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í bók hans Berlínarblús, sem kom út á síðasta ári kemur fram að dr. Lienhard hafði áður beðið danska útvarpið um liðsinni vegna útsendinganna á íslensku. Þar fékk hann þau svör að Þjóðverjar skyldu sjálfir sjá um sinn áróður. Hjá yfirboðurum sínum hjá Þýska útvarpinu fékk hann hins vegar betri undirtektir. Það varð úr að útsendingarnar hófust þann 17. júní árið 1941, eins og dr. Lienhard hafði gert sér vonir um. Morgunblaðið segir svo frá upphafi þessara útsendinga miðvikudaginn 18. júní árið 1941.

Klukkan 6:45 í gærkvöldi hófst útvarp á íslensku frá Þýskalandi. Var útvarpað á stuttbylgjum, öldulengd 19.Flutt var erindi um Jón Sigurðsson forseta. Íslendingurinn sem talaði í útvarpið sagði að ráðgert væri að hefja daglegt útvarp frá Þýskalandi til Íslands og væri ætlast til að útvarp þetta gæti orðið tengiliður milli Þýskalands og Íslands. Þótt fjarlægðin á milli landanna væri mikil, þá bærist þó jafnan frjettir á milli landanna.Voru Íslendingar hvattir til þess að fylgjast vel með „nýbyggingu hinnar hrörnandi Evrópu" sem nú ætti sér stað.Útvarpsþulurinn skýrði frá því að næst yrði útvarpað á Íslensku næstkomandi þriðjudag, 24. júní kl. 17:45 á sömu öldulengd 19 metrum.Útvarpinu lauk með því að íslenski þjóðsöngurinn var leikinn.

Þessi útsending frá Þýskalandi var Morgunblaðinu tilefni frekari skrifa. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 21. júní 1941 mátti lesa:

Það fór ekki hjá því að mönnum yrði nokkuð kynlega við er þýska útvarpið þann 17. júní síðastliðinn hóf útvarp á íslensku, ljet flytja erindi um Jón Sigurðsson og leika þjóðsöng vorn. Var jafnframt tilkynnt að framvegis myndi verða útvarpað íslenskri dagskrá. Um þetta er gott eitt að segja. En á það má þó benda í sambandi við Berlínarútvarpið þann 17. júní, að heppilegra hefði það verið oss Íslendingum að erindið um Jón Sigurðsson hefði verið á þýsku. Því naumast getur það verið hyggja þjóðverja að þjóð Jóns Sigurðssonar sje meiri þörf á fræðslu þeirri um hann en hinni þýsku þjóð, sem nýlega hefir heyrt baráttu þessa manns og lífsstarf alt, óvirt svo hraklega er Íslandi var valið nafnið „dönsk eyja". Undan þeirri nafngift hefði Jón Sigurðsson áreiðanlega sviðið sárar en svo, að lofræða um hann sjálfan hefði sætt hann við hana. En Íslendingar fagna öllu því sem stuðlar að auknum skilningi á landi þeirra og baráttu fyrir frelsi sínu og menningu í nútíð og fortíð. Vjer viljum eiga gott eitt við allar þjóðir. Og það er von vor að vjer megum komast út úr þeira harmleik, sem mestu menningarþjóðir heimsins taka þátt í, að vjer ánetjumst hvergi.

Næsta útsending fór fram að viku liðinni, þann 24. júní. Upp frá þessu stóðu útsendingarnar yfir daglega í 15 mínútur allt til stríðsloka. Blöðin héldu áfram að fylgjast með þessum útsendingum og þann 25. júní árið 1941 segir Morgunblaðið svo frá: „Daglegt útvarp á Íslensku frá Þýskalandi hófst í gær á stuttbylgjum 19,2 öldulengd. Útvarpað er kl 18:45. Í gær var skýrt frá ávarpi Hitlers til þýsku þjóðarinnar í sambandi við innrásina í Rússland og ennfremur rætt nokkuð um starfsemi Alþjóðasambands kommúnista í Svíþjóð." Þó svo að sagt hafi verið frá þessum útsendingum í dagblöðunum virðast blöðin sjaldan hafa séð tilefni til þess að vitna beint til þáttanna frá Þýskalandi. Þó má ímynda sér að vitnað hafi verið til efnis þeirra óbeint í fréttaskrifum blaðanna þegar sagt var frá framgangi styrjaldarinnar. Hins vegar greindu íslensk blöð frá því að í Berlínarútvarpinu hefði verið skýrt frá því að kraftajötunninn Gunnar Salómonsson, sem gekk undir nafninu Úrsus, starfaði í þýsku fjöllistahúsi og hefði lyft fíl. Í Morgunblaðinu 28. nóvember 1942 mátti lesa: „Í útvarpi á íslensku frá Berlín í gær skýrði þulurinn frá því að nokkrir Íslendingar væru sjálfboðaliðar í þýska hernum. Ekki nefndi þulurinn nein nöfn í þessu sambandi, en las upp brjef, sem hann sagði að væri frá íslenskum hermanni."

Magnús Guðbjörnsson var einn þeirra sem starfaði sem þulur við útvarpið í Berlín. Hann segir svo frá því hvernig hann réðst til starfa hjá Berlínarútvarpinu:

Mig minnir að Kristján Albertsson hafi fyrstur manna sagt mér frá því að það væri laust starf við Íslandsdeild þýska útvarpsins, af því að mann vantaði í staðinn fyrir Óskar Vilhjálmsson, sem þá var nýhættur hjá útvarpinu. Þetta gerðist að mig minnir á Íslendingamóti, sem haldið var á veitingastað í Berlín í tilefni þjóðhátíðardags Íslands 1. des. 1941. Íslandsdeildin hafði verið stofnuð á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní sama ár og var því búin að starfa nokkra mánuði þegar Kristján talaði við mig og ef ég man rétt talaði Þórarinn Jónsson tónskáld einnig um þetta við mig á téðu Íslendingamóti. Mig minnir að það hafi verið 15 til 20 manns á þessu móti. Margir Íslendingar voru innlyksa í Þýskalandi og víðar í Evrópu vegna stríðsins. Þar eð Óskar Vilhjálmsson var hættur störfum voru aðeins tveir starfsmenn eftir hjá Íslandsdeildinni, þau Þórarinn Jónsson, aðalþulur og ef ég man rétt Margrét Jónsdóttir, en hún var vélritunarstúlka við Íslandsdeildina. Minnist ég þess að ég mætti hjá Grossdeutscher Rundfunk í ,prufu-upptöku’ á rödd minni, þýskukunnáttu og valdi á íslensku máli. Reyndist ég standast prófið og hóf störf í desember 1941, fyrst og fremst sem þýðandi og auk þess leysti ég Þórarin af sem þulur einu sinni í viku, þegar hann átti frí.

Magnús Guðbjörnsson, rifjar einnig upp hvernig vinnan við útsendingarnar fór fram:

Mig minnir að vinnutíminn hafi verið frá kl 2 til 6 eftir hádegi. Ég var ekki fastráðinn en fékk 20 mörk á dag í laun. Klukkan 2 settumst við Þórarinn við að þýða fréttirnar af þýsku á íslensku og vélritunarstúlkan vélritaði þær jafnóðum. Efnið fengum við frá þýska áróðursmálaráðuneytinu minnir mig. Síðan voru tvö afrit send til tveggja ráðuneyta, annars vegar til áróðursmálaráðuneytisins og hins vegar til utanríkisráðuneytisins. Við utanríkisráðuneytið var síðar stofnuð sjálfstæð deild sem hét Referat Island, ef ég man rétt og störfuðu tveir Íslendingar við hana. Aldraður Íslendingur, Matthías Þórðarson, bróðir forsætisráðherra Íslands, er síðar varð, var forstöðumaður deildarinnar og íslensk vélritunarstúlka starfaði með honum, að nafni Svana eða Svanhildur. Yfirmaður norðurlandadeildar þýska útvarpsins hélt daglega fundi með starfsmönnum norðurlandadeildanna, þar á meðal Íslandsdeildarinnar og var þá farið yfir fréttir dagsins, hvað ætti að taka fyrir og hverju sleppa af öllu því fréttaefni sem kom frá áróðursmálaráðuneytinu, sem einnig nefndist upplýsingamálaráðuneyti.

Magnús Guðbjörnsson segir svo frá því hvernig útsendingarnar fóru fram:

Útsendingar fóru fram daglega frá kl. 17:45 til 18:00 samkvæmt íslenskum tíma. Færeyingar fengu aðeins 5 mínútur einu sinni í viku til útsendingar og sá Íslendingurinn Karl Einarsson, sem kunni færeysku reiprennandi, um þessa þætti og fékk afnot af skrifstofu Íslandsdeildarinnar við það starf. Útvarpssending Íslandsdeildarinnar hófst ávallt með þessum orðum: Hér er Berlín! Hér er Berlín! Þýskaland útvarpar daglega á íslensku frá kl. 17:45 til 18 samkvæmt íslenskum tíma. Síðan kom: Aðalherstöðvar foringjans tilkynna: og þá lesnar fréttir frá vígstöðvunum, ennfremur erlendar fréttir og muni ég rétt var ekki mikið um pólitískan áróður. Mest þurrar fréttir, enda var tíminn naumur til annars. Ég man ekki til þess að neinn hafi haldið fyrirlestur eða ræður í það rúma hálfa ár sem ég starfaði við útvarpið, en það kann þó að hafa gerst síðar í stríðinu án minnar vitundar, enda hlustaði ég aldrei á það. Allt efni var tilreitt upp í hendurnar á okkur frá Þjóðverjum sjálfum. Okkar verkefni var að þýða það og lesa það upp.

Magnús Guðbjörnsson hætti afskiptum sínum af þessum útsendingum um mitt árið 1942, er honum var falið annað hlutverk í stríðinu. Í boði var ferð til Íslands í þeim tilgangi að afla þaðan hernaðarlegra upplýsinga. Magnús var sendur til Danmerkur þar sem hann lærði loftskeytafræði, meðferð dulmálslykla og ýmis njósnavísindi. Hann var síðan sendur við annan mann með þýskum kafbáti til Íslands og þeir settir á land á Langanesi. Magnús og félagi hans gáfu sig fram við yfirvöld og sögðust við yfirheyrslur aldrei hafa ætlað að vinna þau verk sem fyrir þá voru lögð. Það sem eftir var stríðsins fékk Magnús að gista í fangaklefa á Bretlandi.

Eins og áður sagði hefur lítið af efni frá þessum tíma varðveist, en til eru tvær upptökur sem Berlínarútvarpið sendi út. Önnur þeirra er  fyrirlestur sem ónafngreindur Íslendingur hélt þann 10. desember árið 1944 og nefnist hann "Vakna þú íslenska þjóð". Hin upptakan sem hefur varðveist er pistill sem Björn Sv. Björnsson gerði er hann var stríðsfréttaritari á austurvígstöðvunum með herliði Þjóðverja.

Björn Sv. Björnsson dvaldi um sjö til átta mánaða skeið með þýskum hersveitunum á austuvígstöðvunum og fylgdist lengst af með framgangi stríðsins í Kákasusfjöllum. Hann hafði áður sótt um inngöngu í Waffen SS og hlaut hann herþjálfum sem hann lauk seinna sama ár. Í endurminningum sínum segir Björn frá því að honum hafi boðist að ganga í stríðsfréttaritaradeild Waffen-SS, og var gert ráð fyrir því að fréttir, sem hann semdi, yrðu sendar í stuttbulgjusendingum til Íslands. Þetta boð kom flatt upp á Björn, því að eigin sögn hafði hann ætlað að fara beint á austurvígstöðvarnar til þess að berjast. Þegar hann fór síðan að hugsa málið komst hann að þeirri niðurstöðu að ekki væri verra að Íslendingar fengju fréttir af stríðinu frá sjónarhóli Þjóðverja og afréð hann eftir langa umhugsun að taka boðinu. Var honum þá sagt að koma til Berlínar að lokinni þjálfun til að gangast undir próf.

Að loknu þularprófi og þjálfun í meðferð ýmissa hljóðtækja var Björn sendur til austurvígstöðvanna. Ekki bárust fréttapistlar til Berlínar frá honum eingöngu á íslensku, heldur einnig á dönsku og norsku. Fyrst og fremst sendi Björn fréttir af gangi stríðsins, en hann fór einnig út í sveitirnar í kring í efnisleit og hafði stundum uppi á mönnum sem höfðu frá einhverju fréttnæmu að segja.

Þann 14. september árið 1942 hljóðritaði hann pistil, sem hann nefndi „Tveir kósakkar". Í honum ræðir Björn við feðga um ástandið í Úkraínu á dögum Stalíns. Eitt af því sem er merkilegt við þennan pistil er hversu vinnuaðferðum og dagskrárgerð Björns svipar til þeirra aðferða sem dagskrárgerðarmenn beita enn þann dag. Ekki er þó átt við áróðurinn sem kemur berlega í ljós í viðtalinu, heldur lýsir Björn því sem fyrir augu hans ber og leitast við að skapa stemmningu í þessu viðtali. Björn mun hafa sent fleiri upptökur til íslandsdeildar þýska útvarpsins, en þetta er sú eina sem hefur varðveist. Þessi upptaka var ein af þeim síðustu sem Björn gerði á Austurvígstöðvunum. Frá höfuðstöðvum SS í Berlín barst nú skipun um að Björn Sv. Björnsson skyli taka þátt í undirbúningsnámskeiði fyrir germönsk SS-foringjaefni í Bad Tölz í Þýskalandi frá 1. október til 15. desember 1942.

Útsendingar þýska útvarpsins á íslensku stóðu allt til loka stríðsins eða fram í apríl árið 1945. Undir það síðasta voru erlendu ritstjórnirnar fluttar frá Berlín, þeirri ensku var komið fyrir í Bremen, en sú íslenska var flutt til Königsberg við Eystrasalt, sem nú heitir Kaliningrad.Ritskoðun í Ríkisútvarpinu
Axel Thorsteinsson fréttamaður segir frá

Tveir Kósakar"
Björn Sv. Björnsson talar frá austur-
vígstöðvunum. Útvarpað af þýska útvarpinu í september 1942. © DRA

Góðir Íslendingar"
Ávarp Gabriels Turville-Petre. Útvarpað af BBC 18. júní 1944

Vakna þú íslenzka þjóð"
Ávarp ónafngreinds Íslendings. Útvarpað í þýska útvarpinu 10. desember 1944
© DRA

Hervörður í útvarpinu
Úr ritinu Útvarp Reykjavík eftir Gunnar Stefánsson

Útsendingar Breta
Úr handriti Ásgeirs Eggertssonar að þáttunum Stríðið á öldum ljósvakans

©Ríkisútvarpið-menningardeild / Ljósmyndasafn Reykjavíkur 1998